Morgunblaðið 30. mars 2022.
Eftir Jón Inga Cæsarsson: „Ég trúi því að þessi misráðna ákvörðun verði dregin til baka og frímerkjaútgáfa hefjist á Íslandi að nýju.“
Fyrir nokkru ákvað Íslandspóstur að hætta útgáfu frímerkja. Frímerki eiga sér mikinn og merkilegan sess í menningarsögu þjóðarinnar og það var slæm ákvörðun að hætta útgáfu þeirra. Ísland er fátækara og það eru ekki mörg lönd í heiminum sem eru í þeirri stöðu að póstþjónustan gefi ekki út frímerki. Ekki veit ég hvort stjórn fyrirtækisins ákvað þetta eða hvort þessi ákvörðun kom frá framkvæmdastjórninni. Kannski vill einhver upplýsa það. Í póstlögum frá 2019 er skyldunni aflétt af Póstinum að gefa út frímerki en samkvæmt 14. gr. má sjá að gert er ráð fyrir að það sé gert. Engin ástæða til að hliðra sér hjá því að halda því áfram.
Hér er 14. greinin:
14. gr. Frímerki og gjaldmerki.
Póst- og fjarskiptastofnun veitir póstrekendum heimild til útgáfu frímerkja og annarra gjaldmerkja. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að kveða á um að alþjónustuveitandi skuli gefa út frímerki og fer um þá kvöð skv. III. kafla.
Öll íslensk frímerki bera áletrunina „ÍSLAND“.
Um skipti á frímerkjum við erlend póstþjónustufyrirtæki fer eftir reglum sem Alþjóðapóstsambandið (UPU) kann að setja.
Gjaldmerki önnur en frímerki bera heiti viðkomandi póstrekanda eða númer sem Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar honum.
Póst og fjar getur samkvæmt þessu skikkað póstrekanda til að gefa út frímerki og Pósturinn getur sjálfur ákveðið að gera það.
Ísland er fátækara eftir að Íslandspóstur ákvað að hætta frímerkjaútgáfu. Kannski eru einhverjar þjóðir þar, en örugglega ekki margar. Frímerki er, auk þess að vera menningarverðmæti, tæki sem auðveldar póstnotendum aðgengi að þjónustunni. Það er von mín að sjá frímerki gefin út að nýju. Allir þeir sem þekkja til frímerkjaútgáfu vita hvað það eru mikil verðmæti fyrir land og þjóð að hafa frímerkjasöguna. Ég trúi því að þessi misráðna ákvörðun verði dregin til baka og frímerkjaútgáfa hefjist á Íslandi að nýju. Það væri stór rós í hnappagat núverandi framkvæmdastjórnar og nýrrar stjórnar Íslandspósts. Ég skora á Póstinn að taka upp frímerkjaútgáfu að nýju. Póstþjónustan er fátækari eftir að frímerki hurfu úr póstþjónustunni.
Póstsaga.is er hjartanlega sammála höfundi.