Morgunblaðið 13. september 2021:
Íslenskur safnari festi í gær kaup á frímerki fyrir 285 þúsund krónur á uppboðsvefnum Safnari.is.
Þetta staðfestir Gísli Geir Harðarson, einn af eigendum vefjarins. Frímerkið er íslenskt og telur Gísli það vera frá því í kringum árið 1895.
Hann segir frímerkið ekki vera merkilegt sem slíkt, heldur stimpilinn sem er á því. Um er að ræða sjaldgæfan kórónustimpil sem var notaður í Reykholti í Borgarfirði og aðeins eru til þrjú önnur þekkt eintök með honum.
Frímerkið er dýrasti einstaki hlutur sem hefur verið seldur á vefnum síðan hann hóf göngu sína í maí síðastliðnum. Gísli Geir segir viðtökurnar hafa verið frábærar og nefnir sem dæmi að póstkort hafi farið á upp undir 40 þúsund krónur stykkið. Söfnun hafi almennt blómstrað sem „skemmtileg innihobbý“ á meðan á veirufaraldrinum hefur staðið og að bæði innlendir sem erlendir safnarar hafi látið að sér kveða.
„Ég vil hvetja fólk til að skoða hvað það er með og leita ráðgjafar ef það heldur að það sé með eitthvað svona því það er mikil eftirspurn eftir góðum hlutum og það eru mjög góð verð í gangi,“ segir hann.